Sveinstindur er fáfarinn vegna bróður síns, Hvannadalshnúks, sem er hinum megin við öskjuna. Sveinstindur býður uppá eitt fallegasta útsýni á Íslandi. Við sjáum Öræfajökul með sína mörgu tinda, sprunginn jökulinn, Breiðamerkurjökul með sitt Jökulsárlón, auk Hrútárjökuls og Fjallsjökuls með sín litlu lón. Við sjáum fjöllin fyrir neðan jökulinn og sveitina. Ef það er logn heyrum við í hafinu. Hér bjóðum við uppá hrífandi ferð og tækifæri til þess að komast á fáfarinn tind á spennandi máta!
Fyrir hverja? Ferðin er á færi þeirra sem eru í mjög góðu gönguformi og vanir löngum og krefjandi göngum í snjó. Þrátt fyrir að leiðin upp sé ekki tæknileg þá er hún engu að síður löng og tekur á líkamlega og andlega. Ferðin er því afar krefjandi og þarfnast samvinnu leiðsögumanns og göngumanna.
Erfiðleikastig: 5 af 5 mögulegum
Lengd ferðar: 24 km, 14-16 klst
Hæð: 2.044 metrar
Hækkun: 1.300 metrar (ef keyrt uppí 700-800 metra hæð)
Tímabil í boði: Apríl – Júní
Upphafssstaður: Fosshotel Glacier Lagoon
Verð: 31.900 ISK á mann, fyrir að lágmarki fimm manns
Við bjóðum stærri hópum uppá sérverð. Hafið samband við info@localguide.is eða s.8941317 til að fá tilboð.
Hvað er innifalið: Leiðsögn, jeppaskutl og tilheyrandi jöklabúnaður sé þess þörf (broddar, hjálmur, ísexi, sigbelti, o.fl.).
Hvað er ekki innifalið: Útivistarfatnaður, bakpoki, nesti og drykkur.
Hvað þarf að taka með: Nákvæmur búnaðarlisti verður sendur til þátttakenda.
Flokkar: Jöklaleiðangur, tindaleiðangur
Tungumál leiðsögumanns: Íslenska og enska
Tindurinn er nefndur eftir Sveini Pálssyni, lækni og náttúrufræðingi frá 18.öld. Sveinn fór fyrstur manna á Öræfajökul árið 1794 og er einnig talinn vera sá fyrsti til að leggja leið sína bæði á Sveinsgnýpu í Öræfajökli, og á Sveinstind við Langasjó. Hann var einn af þeim fyrstu á Íslandi til að mennta sig sem læknir, en á þeim tíma var það ekki gróðravænlegt. Hann varð einnig fyrsti Íslendingurinn sem útskrifaðist með náttúrufræðipróf og er enn þann dag í dag einn merkasti náttúrfræðingur Íslendinga. Frægastur er hann fyrir að vera fyrstur manna á heimsvísu til að útskýra eðli skriðjökla, en hann lýsti einnig fyrstur manna gosbeltinu sem liggur í gegnum landið og var fyrstur til að finna Gabbró á Íslandi.
Hægt er að komast á toppinn á nokkra vegu. Okkar uppáhalds máti er um 24 kílómetrar í heild sinni og gera má ráð fyrir um 14-16 klst degi. Keyrt er upp Hnappavallaleiðina við Fagurhólsmýri uppí 700-800 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan liggur leiðin upp með jöklinum þar til við komumst að öskjubrúninni. Við brúnina sjáum við Sveinstind og göngum því næst yfir öskjuna í átt að tindinum.
Þegar komið er að tindinum sjálfum er leiðin á hæsta punkt brött. Þar fögnum við sigri og njótum útsýnisins! Ferðalagið heldur spennu sinni áfram, þar sem áætlunin er að fara aðra leið niður, hina svokölluðu Kvískerjaleið, eða “læknaleiðina”. Hún er nefnd eftir Sveini, en hann er talinn hafa farið þessa leið á tindinn. Leiðin liggur meðfram Kvískerjajökli, með endapunkt nálægt bænum á Kvískerjum. Leiðin niður er almennt lítt sprungin og gangan niðureftir er því þægileg en afar löng. Á leiðinni göngum við meðfram fjallstoppum og sjáum Jökulsárlónið vaxa og Hnapp hverfa hægt og rólega þar til við komumst á mosagróna heiðina, þá er stutt eftir.
ATH: Við bjóðum einnig uppá að fara Hnappavallaleið upp og niður, sem og Kvískerjaleið upp og niður, sé þess óskað.
Mikilvægar upplýsingar:
- Nauðsynlegt er að gista í Öræfum nóttina áður, þar sem gangan hefst eldsnemma morguns og lýkur ekki fyrr en seinni hluta dags.
- Við mælum með að vera kominn um eftirmiðdag til þess að ná góðri hvíld fyrir langan og erfiðan dag.
- Algengt er að fara af stað á milli 3 og 5 um nóttina, eftir aðstæðum.
- Við erum með kynningarfund klukkan 17 daginn áður, ef þið komist ekki þá getið þið fengið upplýsingar í gegnum síma og tölvupóst.
785 Öræfi
Við erum í 340km fjarlægð frá Reykjavík.
Við munum senda þér upplýsingar um nákvæman stað og stund fyrir ferðina.